Zankov stærðfræði

Þetta stærðfræðinámsefni er rússneskt, kennt við Leonid Zankov sem var lærisveinn Vygotsky. Það er því undir áhrifum kenninga Vygotsky um mikilvægi tungumálsins og félagslegra samskipta svo nám eigi sér stað. Efnið var þýtt á norsku og fyrstu námsbækurnar gefnar út þar í landi árið 2014 undir nafninu Utviklende opplæring i matematikk en nokkru fyrr hafði Smeaheiaskolen í Sandnes hafið notkun þess. Í dag eru um 80 norskir skólar að nota þetta námsefni og kennsluaðferðir. Lesa má nánar um efnið á norsku eða ensku á Matematikklandet.
Starfsmenn Gloppu sf hafa þýtt grunnbækur og verkefnabækur fyrir fjögur fyrstu ár grunnskólans úr norsku en kennsluleiðbeiningar hafa ekki verið þýddar. Hægt er að panta þær beint frá Barentsforlag. Á íslensku hafa þýðendur valið að kalla efnið NEISTI-Lærum saman og hugsum djúpt og er það einungis gefið út hér á vefnum. Þróunin í notkun efnisins á Íslandi hefur verið þessi:
- 2015 – Breiðagerðisskóli í Reykjavík verður hluti af samnorrrænu þróunarverkefni.
- 2016 – Oddeyrarskóli og Síðuskóli á Akureyri kynna sér efnið óþýtt og nýta lítillega.
- 2018 – Skólarnir þrír hefja samstarf til þriggja ára um innleiðingu efnis og kennsluhátta. Kennarar fengu efnið rafrænt og þýtt á íslensku. Þóra Rósa Geirsdóttir þá sérfræðingur MSHA var ráðgjafi skólanna.
- 2018 – 2021 – MSHA stóð að samanburðarrannsókn á árangri barna sem fengu kennslu eftir Sprota og þeim sem kennt var eftir Zankov stærðfræðinni. Rannsókninni stýrði Dr. Rannveig Oddsdóttir auk Þóra Rósu. Sjá niðurstöður rannsóknarinnar hér.
- 2020 – Fjórir nýir skólar á Akureyri og einn í Reykjavík hefja innleiðingu.