Fréttir og tilkynningar

Samstarf við Grunnskóla Fjallabyggðar

Gloppa sf verður samstarfsaðili Grunnskóla Fjallabyggðar í þróunarverkefninu Stærðfræðinám í lærdómssamfélagi sem standa mun næstu tvö skólaár. Sprotaðasjóður og Endurmenntunarsjóður grunnskóla veittu styrk til verkefnisins.

Markmiðið er að koma upp sterku lærdómssamfélagi bæði nemenda og kennara. Áhersla verður lögð á að nemendur læri í samstarfi hver við annan og þjálfist í að gera grein fyrir hugsun sinni og lausnaleiðum. Með kennurum verður byggt upp lærdómssamfélag þar sem áherslan verður á samræðu, samvinnu, ígrundun og endurmat.

Námskeið

17. febrúar verður Dóróþea í þriðja sinn með námskeiðð Lengi býr að fyrstu gerði í samstarfi við Endurmenntun HÍ. Ummæli þátttakenda hafa verið afar jákvæð og færri komist að en vilja á fyrri námskeiðin tvö. Það er því ekki eftir neinu að bíða að skrá sig en snemmskráningu lýkur þann 7. febrúar. Nánari upplýsingar og skráning er hér.

Athyglisverð bók

Building Thinking Classrooms in Mathematics, Grades K-12

Fyrr á árinu rak þessa merkilegu bók á fjörur okkar. Mælum eindregið með henni fyrir þá sem vilja breyta kennsluháttum sínum í átt til meiri virkni nemenda í stærðfræðináminu. Allar þær breytingar sem lagðar eru til í bókinni byggja á áralangri rannsóknarvinnu höfundarins Peter Liljendahl. Óhætt er að segja að tillögur hans séu mjög byltingarkenndar þegar tekið er mið af hefðbundinni stærðfræðikennslu.

Samstarf við Endurmenntun Háskóla Íslands

Framundan eru tvö námskeið í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands. Fimmtudaginn 7. október verður Dóróþea í annað sinn með námskeið fyrir stærðfræðikennara á yngsta stigi og sérkennara sem ber heitið Lengi býr að fyrstu gerð og mánudaginn 11. október verða hún og Þóra Rósa í þriðja sinn með námskeið fyrir starfsfólk leikskóla undir heitinu Stærðfræði-leikur og lítil börn. Bæði þessi námskeið hafa verið mjög vel sótt og ummæli þáttakenda benda til að við getum óhræddar mælt með þeim.

Neisti – stærðfræði fyrir 1. – 4. bekk

Nú hafa nýir kennarar sem nota kennsluefnið og kennsluaðferðir Neista fengið sitt haustnámskeið. Þar er farið yfir hugmyndafræðina og þá ráðgjöf sem kennarar fá í vetur. Þá var einnig farið í Breiðagerði sem er upphafsskólinn og rætt við reynda kennara og reynsluna og fram kom mikil ánægja með þetta efni og aðferðir.

Þá hafa starfsmenn Gloppu farið í yfirlestur og endurbætur á námsefninu og hafa góðar ábendingar kennara síðustu ár verið rauði þráðurinn í þeirri vinnu. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki á þessu ári.

Ef skólar hafa áhuga á að kynna sér þetta efnið hafið þá endilega samband við okkur 🙂

Heimasíða Gloppu opnuð

Við kynnum með stolti nýja heimasíðu Gloppu sf. Fyrirtækið var stofnað árið 2017 og var fyrsta verkefni þess að þýða og gefa út MIO, sem er stærðfræðiskimunarefni fyrir leikskóla. Á þeim tíma sem liðinn er síðan hefur okkur vaxið ásmegin og sinnum nú fjölbreyttu námskeiðahaldi og þróunarstarfi, einkum á sviði stærðfræðimenntunar. Allt um það á nýju heimasíðunni.